top of page

Upphaf kvenréttindabaráttunnar á Íslandi

 

 

Neistann að kvenréttindabaráttu á Íslandi kveiktu menn sem skrifuðu greinar um óréttlætið sem konur þurftu að þola og menntunarleysið sem einkenndi kvenþjóðina. Einn af þeim var séra Guðmundur Einarsson sem var sennilega fyrstur til að skrifa um réttindi kvenna. Skrifin urðu að ritgerð í dreifibréfi sem kom út árið 1847 og fjallaði um skólahald stúlkna.

Í Danmörku stofnaði Natalie Zahle stúlknaskóla árið 1852 sem varð fljótt fyrirmynd kvennaskóla á öllum Norðurlöndunum. Kvennaskólinn í Reykjavík var með fyrstu kvennaskólum landsins. Þóra og Páll Melsted söfnuðu fé í Skotlandi, Danmörku og á Íslandi. Þau hófu skólahald í húsi sínu við Austurvöll árið 1874. Skólinn flutti í núverandi húsnæði við Fríkirkjuveg árið 1909. Í kjölfarið voru reistir nokkrir kvennaskólar á landsbyggðinni, t.d að Laugalandi í Eyjafirði og í Skagafirði árið 1877 og í Húnavatnssýslu árið 1879.

Árið 1894 var Hið íslenska kvenfélag stofnað, það var fyrsta kvenfélagið sem hafði kvenréttindi í stefnuskránni. Margar félagskvenna höfðu gengið í kvennaskólana  og var þeirra fyrsta verk að safna undirskriftum 2.348 kvenna sem kröfðust stjórnmálajafnréttis.

Árið 1895 komu út tvö mánaðarrit og eitt ársrit á vegum kvenréttindakvenna; Framsókn sem var pólitískt mánaðarrit, Kvennablaðið sem var einnig mánaðarrit gefið út af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í Reykjavík, það gaf sig mest að menningarmálum og heimilismálum og loks Ársrit sem Hið íslenska kvenfélag gaf út. Þar komu pólitískar skoðanir forystukvenna fram.

 

 

bottom of page