Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir fæddist 15. apríl 1930 í Reykjavík og er þekktust fyrir að hafa verið kjörin forseti fyrst kvenna í heiminum. Pabbi hennar var prófessor í verkfræði og móðir hennar hjúkrunarfræðingur og formaður Hjúkrunarfélags Íslands. Hún átti einn yngri bróður sem lést af slysförum þegar hún var 22 ára gömul.
Vigdís varð stúdent úr MR vorið 1949 og stundaði eftir það nám við háskóla í Frakklandi, Danmörku og á Íslandi. Eftir námið vann hún sem blaðafulltrúi Þjóðleikhússins í nokkur ár og giftist Ragnari Arinbjarnar sama ár, 1954. Þau skildu eftir 7 ára hjónaband.
Vigdís kenndi frönsku í Menntaskólanum í Reykjavík, Menntaskólanum við Hamrahlíð og í sjónvarpinu. Síðar kenndi hún franskar leikhúsbókmenntir við Háskóla Íslands. Vigdís hafði mikið dálæti á tungumálum, sérstaklega íslenskunni, og var hún vel mælsk á mörgum tungum; frönsku, dönsku og sænsku þá helst.
Árið 1972 varð Vigdís leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur, sem starfar nú sem Borgarleikhúsið, og vann hún þar í átta ár. Sama ár ættleiddi hún dóttur sína Ástríði.

Á nýársdag 1880 tilkynnti þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram í forsetaembættið. Vangaveltur um hver tæki við af honum hófust. Eftir kvennafrídaginn 1975 var umræða komin upp að kona þyrfti nú að bjóða sig fram og var m.a. minnst á Vigdísi í þeim efnum. Laufey Jakobsdóttir var fyrst til að orða Vigdísi við embættið opinberlega þegar lesendabréf hennar birtist í Dagblaðinu 15. janúar 1980. Þar skoraði hún á Vigdísi að gefa kost á sér. Höfðu þá þrír karlmenn þegar boðið sig fram og vissi Vigdís að hún yrði að taka ákvörðun, og það fljótt þegar henni barst skeyti frá sjómönnum þar sem þeir hvöttu hana í framboð. Mikil pressa var á Vigdísi sem barst stuðningur víða að. Eftir að hafa neitað staðfastlega að hún myndi bjóða sig fram ákvað hún að láta slag standa eftir fund með trúnaðarmönnum sínum þar sem þau ræddu opinskátt um framboðið og allar hliðar þess. Þar með varð hún fjórði og síðasti forsetaframbjóðandinn til að tilkynna um framboð sitt.
Margar konur úr Rauðsokkahreyfingunni studdu framboð Vigdísar þótt samtök kvenna vildu ekki styðja hana opinberlega. Voru jafnframt margar konur sem töldu hana óhæfa í embættið og lýstu yfir stuðningi á aðra frambjóðendur. Algengustu röksemdirnar sem notaðar voru gegn henni voru að hún væri ógift, einstæð móðir, herstöðvaandstæðingur og hefði enga stjórnmálareynslu. Mörgum fannst að forsetaembættið væri tveggja manna starf og sagði Valgarð L. Jónsson að það væri ekki við hæfi konu að taka á móti erlendum höfðingjum. Hún ætti að vera á sínum stað við hlið eiginmannsins, styðja hann og sinna sínum göfugu húsmóðurskyldum. (Morgunblaðið í byrjun febrúar 1980.) Afstaða til hersins vó einnig þungt í huga margra kjósenda og gat jafnvel ráðið atkvæðum. Þegar Vigdís var yngri hafði hún farið í mótmælagöngu vegna hersetu á Íslandi. Hún var friðarsinni en tóku ekki allir mark á þeim orðum hennar.
Framboð Vigdísar var svipað framboði Kristjáns Eldjárns. Þau voru bæði virk í menningarlífinu og reynslulaus í pólítík. Á tíma Kristjáns var það talinn kostur en var þetta notað gegn Vigdísi.
Allra síðustu skoðanakannanir sýndu að baráttan stæði hnífjöfn milli Vigdísar Finnbogadóttur og Guðlaugs Þorvaldssonar. Að morgni 29. júní voru úrslitin ljós og vann Vigdís með naumum meirihluta. Kosningaþáttaka var einhver sú besta sem mælst hafði og tóku um 90,5% kosningabærra manna þátt. Vigdís sat í embætti fjögur kjörtímabil og þurfti ekki einu sinni að efna til atkvæðagreiðslu í tvö skipti.
Með kjöri sínu sýndi Vigdís fram á að konur væru engir eftirbátar karla og stæðu þeim algjörlega jafnfætis. Vigdís var mikið í sviðsljósinu og var kjör hennar heimsfrétt enda hafði kona aldrei áður verið kosin forseti í nokkru landi. Hún kom fram við alla sem jafningja, hvort sem það væru konur, karlar eða börn og varð hún andlit kvenréttindabaráttunnar á Íslandi.