top of page

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

 

 

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var merkileg kona og átti stóran þátt í íslenskri kvennabaráttu. Hún stofnaði og ritstýrði Kvennablaðinu, átti frumkvæðið að stofnun Kvenréttindafélags Íslands, Verkakvennafélagsins Framsóknar og Lestrarfélags kvenna í Reykjavík.

Bríet fæddist 27. september 1856, dóttir Sæmundar Bjarnhéðinssonar og Kolfinnu Snæbjörnsdóttur og var elst fjögurra systkina. Þegar Bríet var þrettán ára missti móðir hennar heilsuna og þar sem Bríet var elsta stúlkan á heimilinu kom það í hennar hlut að sjá um heimilið. Sextán ára skrifaði hún niður hugleiðingar sínar um mismuninn á möguleikum og kjörum drengna og stúlkna. Þessar hugleiðingar urðu seinna að grein sem birtist í blaðinu Fjallkonunni þrettán árum síðar - 1885 -  undir nafninu Æsa. Bríet var fyrsta konan sem skrifaði um kvenréttindi.

Tvítug missti hún föður sinn og réð sig þá í vist til móðurfrænda síns í tvö ár. Þar komst hún í gott bókasafn og reyndi að notfæra sér það þegar tími gafst til. Þaðan lá leiðin í Kvennaskólann á Laugalandi veturinn 1877. Lengri varð skólagangan ekki en hún reyndi alla ævi að auka við menntun sína og varð mjög góð í Norðurlandamálum og ágæt í ensku. Henni þótti miður að hafa ekki fengið meiri menntun og stundaði sjálfsnám alla ævi.

Bríet varð fyrst íslenskra kvenna til að flytja opinberan fyrirlestur árið 1887: „Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna“. Fyrirlesturinn fjallaði um uppeldi, menntunarleysi og launakjör vinnukvenna og lagði Bríet áherslu á að hugsunarhátturinn yrði að breytast.

Bríet giftist Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar. Þau eignuðust tvö börn, Laufeyju (f. 1890) og Héðin (f. 1892). Árið 1894 var Hið íslenska kvenfélag stofnað í Reykjavík. Valdimar var frjálslyndur og víðsýnn maður. Hann féll skyndilega frá 1902 en Bríet var þá 45 ára ekkja með tvö börn. Árið 1904 hélt hún í sex mánaða ferð til Norðurlanda. Þar kynntist hún skipulagðri kvenréttindabaráttu sem leiddi til hugmyndar um að stofna kvenréttindafélag á Íslandi.  Bríeti var boðið að sækja alþjóðaþing kvenréttindafélaga í Kaupmannahöfn í júlí 1906. Hún kom heim gallhörð súffragetta og brann í skinninu yfir að efna til samtaka til að berjast fyrir kosningarétti kvenna. Hún, ásamt fjórtán öðrum konum, giftum og ógiftum, stofnaði Kvennréttindafélags Íslands árið 1907.

Tvívegis bauð Bríet sig fram til þings. Í fyrra skipið við fyrsta landskjörið í ágúst 1916 og seinna skiptið tíu árum síðar, 1926. Í hvorugt skiptið hlaut hún brautargengi.

 

Fjallkonan 1885,  grein Bríetar:

 

"Það er næsta eptirtektarvert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og rjettindum í helgreipum, og það virðist, sem þeir álíti það mikilvæg einkarjettindi, helguð af fornri venju, að vera allt gagnvart þeim, en að þær megi ekkert vera. Að þetta sje rjett og eðlilegt þykjast þeir sanna með þeim ritningargreinum, að konan sje ekki nema eitt „rif úr síðu mannsins“, og eigi því aldrei að verða tiltölulega meira, og að „maðurinn sje konunnar höfuð“."

 

 

 

bottom of page