top of page

Rauðsokkahreyfingin og Kvennafrídagurinn

 

 

Í lok apríl 1970 kom saman hópur kvenna í kjallara Norræna hússins til að ræða stöðu kvenna á Íslandi og leiðir til að vekja til umræðu um réttindi kvenna og það sem þarft væri að bæta.  Nokkrum vikum áður hafði danskur kvennahópur sem kallaði sig Rødstrømperne  þrammað niður Strikið í Kaupmannahöfn, klæddar rauðum sokkum með risabrjóst, gerviaugnhár og  gríðarlega hatta. 1968 tók hópur í New York til starfa í rauðum sokkum og kallaði sig Redstockings. Dolle Mina kom fram á sjónarsviðið í byrjun árs 1970 í Hollandi og vakti mikla athygli.

Hópurinn sem hittist í Norræna húsinu auglýsti í útvarpinu: „Konur í rauðum sokkum! Komið í 1. maí gönguna." Fjöldi kvenna safnaðist saman þennan dag og marseraði niður Laugaveg með risastyttu af Venusi. Á henni var borði sem á stóð: Manneskja - ekki markaðsvara. Í göngunni var ákveðið að stofna hreyfingu til að berjast fyrir réttindum kvenna. Rauðsokkahreyfingin var fædd.

Um fjörutíu ár voru liðin síðan Kvennaframboðið hið fyrra hætti störfum og engin formleg kvennabarátta hafði verið fram til rauðsokkanna. Á árunum 1922-1979 höfðu aðeins 12 konur setið á þingi en það er mun lakara hlutfall en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

1972 fluttu rauðsokkur 10 þætti í útvarpinu „Ég er forvitin-rauð“ sem fjölluðu m.a. um barneignir, getnaðarvarnir og fóstureyðingar, barnaheimili og barnauppeldi og húsmæður og mat á heimilisstörfum. Sumir þáttanna vöktu heitar umræður og hneykslan, enda um hitamál að ræða. Hreyfingin var mjög umdeild á sínum tíma og enn má heyra fordóma í garð hennar en hreyfingin hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag. Rauðsokkurnar vildu vinna að fullkomnu jafnrétti karla og kvenna á öllum sviðum þjóðfélagsins. „Forvitin rauð varð nafn á blaði sem hreyfingin gaf út frá 1972. Þættirnir og blöðin voru öll unnin í hópavinnu, eins og venja var hjá rauðsokkum. Hreyfingin kaus engan formann og hélt engar fundargerðarbækur. Karlar jafnt sem konur máttu vera með í hreyfingunni.

Sem dæmi um baráttumál sem Rauðsokkahreyfingin barðist fyrir voru til dæmis skólaganga kvenna. Rauðsokkurnar vildu að konur hefðu sömu aðstöðu og viðurkenningu samfélagsins til að mennta sig og karlar. Árið 1911 fengu konur lagaleg réttindi til menntunar og fengu aðgang að öllum menntastofnum í landinu. Þrátt fyrir það nýttu sárafáar konur sér þann kost. Árið 1970 voru einungis 150 íslenskar konur í háskólanámi en í dag um 10.000. Konur eru nú í meirihluta í háskólanámi en í Háskóla Íslands eru 62,4% konur í námi en 37,6% eru karlar.

Rauðsokkahreyfingin mótmælti einnig tvöföldu vinnuálagi á konur, þar sem stór hluti kvenna var úti á vinnumarkaðinum og þegar heim var komið tók við ólaunuð vinna á þar. Þær mótmæltu einnig að konur fengju ekki sömu laun og karlar fyrir sömu vinnu. Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu konum árið 1975. Sú hugmynd kom upp í undirbúningsnefndinni hér að konur gerðu verkfall einn dag, sú hugmynd þróaðist í kvennafrídag sem var haldinn 24. október 1975. Hann snerist um að konur legðu niður vinnu til þess að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns og að þær ættu að fá laun í samræmi við það. Atvinnulífið lamaðist sem sýndi fram á hversu mikilvægar konur voru í atvinnulífinu. Kvennabaráttan hafði yfirleitt verið í höndum menntaðra kvenna en fundurinn 24. október náði að virkja „venjulegu konuna“. Talað var um að nú þyrfti kona að bjóða sig fram til forseta og voru ýmis nöfn nefnd, þar á meðal, Sigríður Thorlacius,  sem var formaður Kvenfélagasambands Íslands, og Alma Þórarinsson læknir.

Rauðsokkahreyfingin starfaði til ársins 1982 þegar ný samtök kvenna - Kvennaframboðið - í Reykjavík og á Akureyri komu fram og buðu fram sérlista til sveitarstjórna. Margar rauðsokkur kusu að starfa með hinum nýju samtökum og Rauðsokkahreyfingin lagðist af.

 

 

 

bottom of page